Veikt gengi krónunnar má að hluta rekja til þess að íslensk fyrirtæki og sveitarfélög eru að greiða niður erlendar skuldir í töluverðum mæli. Þrátt fyrir undirliggjandi viðskiptaafgang er útstreymi á fjármagnsjöfnuði, sem tengist lánagreiðslum áðurnefndra aðila.

Már Guðmundsson seðlabankastjóri sagði þetta mat bankans á kynningarfundi stýrivaxtaákvörðunar peningastefnunefndar í þarsíðustu viku.

Krónan hefur veikst mikið upp á síðkastið, þar af um 1% í gær, og stóð gengisvísitalan við lokun gjaldeyrismarkaðar í 226,47 stigum. Til samanburðar var vísitalan í 200 stigum í nóvember í fyrra og í 217,28 stigum um áramót.

Már sagði skýringuna bæði liggja í því að fyrirtæki og sveitarfélög geti ekki endurfjármagnað lánin og að í einhverjum tilvikum er litið á niðurgreiðslu lánanna sem besta fjárfestingarkostinn í bili.

„Þetta býr auðvitað í haginn fyrir framtíðina og lagar erlenda stöðu þjóðarbúsins, en hefur þau neikvæðu áhrif um hríð að geng- ið veikist og getur þar af leiðandi haft áhrif á verðbólguna,“ sagði hann.

Nánar er fjallað um málið í Viðskiptablaðinu. Áskrifendur geta nálgast blaðið undir liðnum tölublöð hér að ofan.