Íslandsbanki tilkynnti um þriggja milljarða óstöðluð viðskipti í RIKB31 til kauphallarinnar 16. og 18. júní síðastliðinn, en hagtölur Seðlabankans sýna að samtímis fóru álíka upphæðir í gegnum gjaldeyrismarkaðinn sem styður þá kenningu að um erlenda aðila hafi verið að ræða. Þetta segir Brynjar Örn Ólafsson hagfræðingur í grein sem birtist á VB.is í morgun.

Brynjar Örn segir að Markaðsupplýsingar Lánamála ríkisins hafi svo staðfest á fimmtudag að erlendir aðilar hefðu aukið stöðu sína í flokknum um þrjá milljarða króna að nafnvirði í júní. Erlendir aðilar hafi ekki áður átt svo mikið í flokknum frá því að hann var gefinn út í janúar 2011.

„Þar sem aflandskrónueigendum var í byrjun mars gert óheimilt að fjárfesta í öðrum verðbréfum en ríkisvíxlum, og að síðasta gjaldeyrisútboð fór fram 10. febrúar síðastliðinn, verður að teljast sennilegt að kaupin í RIKB31 hafi verið merkt með „gulum miða“ sem nýfjárfesting,“ segir Brynjar Örn.

Hann segir að fátt standi í vegi fyrir því að vaxtamunarviðskiptin haldi áfram, fyrir utan að flotið í flokknum sé af skornum skammti þar sem eignarhald lífeyrissjóðanna sé um 82%.

„Til marks um erfiðið við að finna álíka magn og 3 ma.kr. á ásættanlegri kröfu sýnir tölfræði Lánamála að þau veittu rúmlega 2 ma.kr. verðbréfalán í viku 15. til 19. júní í RIKB31. Í síðustu viku staðfestu Markaðsupplýsingar nauðsyn lánanna þar sem aðrir eigendur seldu einungis 1,3 ma.kr. í flokknum í júní á móti kaupum erlendu aðilanna,“ skrifar Brynjar Örn.

Grein Brynjars má lesa í heild sinni hér.