Á þremur árum hafa stóru bankarnir þrír gefið út erlend skuldabréf fyrir jafnvirði 170 milljarða króna. Tilgangurinn er einna helst að geta boðið íslenskum fyrirtækjum upp á fjármögnun í erlendri mynt. Áhættuálag á erlenda skuldabréfaútgáfu bankanna hefur helmingast síðan í upphafi árs 2013. Fyrr í mánuðinum gaf Íslandsbanki út skuldabréf til að bregðast við áhuga hjá norskum fjárfestum.

Fjármögnunarkjör íslensku bankanna í erlendri mynt hafa farið sífellt batnandi síðan Arion banki reið á vaðið árið 2013 með útgáfu 11,2 milljarða íslenskra króna skuldabréfs í norskum krónum. Það bréf var gefið út með 5% álagi á grunnvexti, en fyrr í þessum mánuði gaf Íslandsbanki hins vegar út 7,8 milljarða íslenskra króna skuldabréf í norskum krónum með 2,6% álagi. Vaxtaálag á íslensku bankana, sem túlka má sem mat fjárfesta á því hversu áhættusamt er að lána þeim í erlendri mynt, virðist því hafa helmingast á tveimur og hálfu ári.

Munurinn milli Íslands og Norðurlandanna að minnka

Guðbjörg Birna Björnsdóttir, fjárfestatengill Íslandsbanka, bendir á að á meðan vaxtaálag á skuldabréfa­ útgáfur bankans hafi lækkað úr 4% í 2,6% frá árinu 2013 hafi álag á útgáfur banka á hinum Norðurlöndunum hækkað á sama tíma. „Þannig að það er jákvæði punkturinn, að munurinn á milli okkar sé að minnka,“ segir hún.

Landsbankinn gaf út skuldabréf í evrum fyrir jafnvirði 43 milljarða króna fyrr í þessum mánuði. Skuldabréfin voru gefin út með 2,95% vaxtaálagi. Hreiðar Bjarnason, framkvæmdastjóri fjármála hjá Landsbankanum, segist vona til þess að fjármögnunarkjör bankans batni enn eftir því sem fram vindur. „Það er ennþá einhvers konar áhættuálag á Ísland umfram það sem til dæmis lánshæfiseinkunn bankanna og ríkisins gefur til kynna. Við vonumst til þess að það álag minnki,“ segir hann. Hreiðar segir að bankar á Norðurlöndunum og á evrusvæð­ inu með svipaða lánshæfiseinkunn og Landsbankinn séu að fá kjör allt niður í 1% álag á grunnvexti. „Það eru þá engu að síður bankar sem eru að gefa út í sinni grunnmynt og hafa aðgang að Seðlabanka Evrópu. Þannig að það er kannski ekki raunhæft að fara alla leið þangað niður, en klárlega í áttina,“ segir Hreiðar

Nánar er fjallað um málið í Viðskiptablaðinu. Áskrifendur geta nálgast pdf-útgáfu af blaðinu með því að smella á hlekkinn Tölublöð .