Gengisvísitala krónunnar stendur nú í 164,2 stigum. Gengi krónunnar er því um það bil komið aftur á þann stað og það var á í upphafi vikunnar. Sveiflur hafa þó verið miklar, bæði innandags og milli daga.

Á mánudag veiktist krónan um 3%, en á tímabili fór gengisvísitalan yfir 170 stig. Á miðvikudag átti sér síðan stað snörp styrking upp á 3,8%.

Sveinn Agnarsson, sérfræðingur hjá Hagfræðistofnun Háskóla Íslands segir erfitt að henda reiður á hvers vegna svo miklar sveiflur eigi sér stað nú.

„Mér dettur þó helst í hug að lítið sé um gjaldeyri og markaðurinn með hann nokkuð þunnur. Því þarf ekki mikið til að hreyfa við honum. Ef einhverjir eiga viðskipti með krónur á markaði sem lítið er að gerast á getur það haft sterk [innsk: verðmyndandi] áhrif,“ segir Sveinn í samtali við Viðskiptablaðið.

„Ef veltan er minna lagi geta einstakir aðilar haft mikil áhrif á markaðinn án þess að um stór viðskipti sé að ræða,“ segir hann.

Sveinn segist ekki hafa trú á því að erlendir fjárfestar horfi á krónuna sem valkost í dag. „Flöktið er of mikið, þrátt fyrir háa vexti. Þeir fjárfestar sem voru inn í krónunni eru væntanlega flestir farnir út úr henni.“

Velta á gjaldeyrismarkaði frá mánudegi til og með fimmtudegi nam um 200 milljörðum króna. Til samanburðar nam velta í öllum maí síðastliðnum rúmlega 500 milljörðum króna. Í apríl nam veltan 845 milljörðum.

Mars var metmánuður gjaldeyrismarkaði með 1212 milljarða veltu. Þá var meðaldagsvelta 60 milljarðar króna, en á miðvikudaginn síðastliðinn þegar krónan styrktist hratt nam dagsveltan 68 milljörðum.