*

föstudagur, 13. desember 2019
Innlent 11. september 2019 12:00

Erlendum ferðamönnum fækkað um 13%

Greiningardeild Arion banka reiknar í nýrri skýrslu með 2% fjölgun ferðamanna á næsta ári.

Ritstjórn
Lengri dvalartími og aukinn neysla erlendra ferðamanna vegur upp á móti fækkun.
Haraldur Guðjónsson

Dvalartími ferðamanna hefur lengst umtalsvert það sem af er ári og neysla hvers og eins ferðamanns aukist. Þetta kemur fram í nýrri skýrslu Greiningardeildar Arion banka, Ferðamannalandið Ísland, og af þessum sökum verði tekjusamdráttur í ferðaþjónustu líklega minni en deildin reiknaði með í upphafi árs.  Deildin rekur ástæðu aukinnar neyslu til þess að líklega hafi ferðamenn verið minna oftaldir en áður, áherslubreytinga hjá Icelandair og breyttra samsetningar ferðamanna. 

Samkvæmt tölum deildarinnar hefur erlendum ferðamönnum til Íslands fækkað um rúmlega 13% það sem af er ári. Breytt samsetning farþega í leiðarkerfi Icelandair á mati deildarinnar stóran hlut í að ferðamönnum hafi ekki fækkað meir. Það sem af er ári hefur Icelandair flutt 30% fleiri ferðamenn til Íslands en á síðasta ári, á meðan heildarfjöldi farþega félagsins hefur aukist um 11%. 

Í skýrslunni er reiknað með að „bataferlið fari hægt af stað eftir magalendinguna í mars“ en deildin spáir því að ferðamönnum muni fjölga um 2% á næsta ári.  

„Að okkar mati mun kyrrsetning MAX flugvélanna draga þann dilk á eftir sér að umsvif Icelandair verða svipuð á næsta ári og á þessu. Hvort fjölgun ferðamanna verður meiri mun ráðast að miklu leyti af hvort hér tekst á loft nýtt flugfélag,“ segir ennfremur í skýrslunni.