Hagnaður endurskoðunarfyrirtækisins Ernst & Young ehf. á reikningsárinu, sem lauk 30. júní síðastliðinn, nam 54,7 milljónum króna, en á sama tímabili ári fyrr nam hagnaður fyrirtækisins 86,8 milljónum. Er þetta í takt það sem hefur gerst hjá öðrum endurskoðunarfyrirtækjum, þ.e. að hagnaður á síðasta rekstrarári var minni en árið á undan.

Rekstrartekjur Ernst & Young í fyrra námu 705,9 milljónum króna og jukust um rúmar fimmtán milljónir króna milli ára. Rekstrarkostnaður jókst öllu meira, eða um 59 milljónir, og nam 635,4 milljónum króna. Þar af nam launakostnaður 148,2 milljónum króna og jókst um 14,6 milljónir króna milli ára.

Hagnaður fyrir tekjuskatt nam 68,3 milljónum króna samanborið við 111,4 milljónir árið áður. Eignir félagsins námu 243,1 milljón króna og lækkuðu um 46 milljónir milli ára. Langstærstur hluti eignanna eru viðskiptakröfur og óútskrifaðir tímar, en fastafjármunir nema aðeins um 14,3 milljónum króna. Skuldir félagsins námu í lok reikningsársins 165 milljónum króna. Þar af námu langtímaskuldir 42,7 milljónum króna.

Ekki kemur fram í ársreikningnum tillaga um greiðslu arðs, en fyrir rekstrarárið 2010-2011 var greiddur arður sem var mjög nálægt því að vera jafnhár hagnaði félagsins á árinu. Ef því fordæmi er fylgt má búast við arðgreiðslum úr félaginu upp á 50-55 milljónir króna.