Umboðsmaður Alþingis gerði athugasemdir við rannsókn máls hjá úrskurðarnefnd velferðarmála en nefndin staðfesti ákvörðun Vinnumálastofnunar um að fella niður rétt manns til atvinnuleysisbóta.

Ákvörðun Vinnumálastofnunar byggðist á því að viðkomandi var talinn hafa hafnað starfi því hann neitaði að mæta í svokallaðar „prófanir“ í kjölfar atvinnuviðtals. Hann taldi aftur á móti að ekki væri um höfnun að ræða, heldur að hann hafi dregið sig úr ráðningarferlinu, m.a. vegna þess að umræddar „prófanir“ fólu í sér launalausa vinnu.

Í áliti umboðsmanns segir að þrátt fyrir að viðkomandi hafi ekki orðið við beiðni úrskurðarnefndarinnar um að leggja fram gögn, sem staðfestu að umræddar „prófanir“ væru launalausar, yrði að hafa í huga að í kæru hans til nefndarinnar kom fram að samskipti hans við fyrirtækið fór fram í gegnum síma. Því bar úrskurðarnefndinni að leggja mat á hvort hægt væri að afla upplýsinga um þetta atriði áður en ákvörðun er tekin. Stjórnvöldum er ekki ætlað að grípa til sönnunarreglna í stað fullnægjandi rannsóknar. Umboðsmaður taldi því meðferð málsins ekki hafa verið í samræmi við rannsóknarreglu stjórnsýsluréttar.

Umboðsmaður Alþingis beindi þeim tilmælum til úrskurðarnefndarinnar að taka mál viðkomandi aftur til meðferðar, kæmi beiðni þess efnis af hans hálfu.