Ísland hefur þrjá mánuði til að greiða Bretum og Hollendingum til baka það fé sem þeir lögðu út vegna lágmarkstryggingagreiðslna vegna ICesave-reikninganna. Geri íslenska ríkið það ekki mun það verða dregið fyrir EFTA-dómstólinn. Þetta kemur fram í tilkynningu frá Eftirlitsstofnun EFTA sem birtist á vef hennar rétt í þessu.

ESA hefur þegar sent íslenskum stjórnvöldum bréf þess efnis.

Bretar og Hollendingar búnir að greiða út

Bretar og Hollendingar greiddu út lágmarkstryggingu upp að 20.887 evrum til allra þeirra sem áttu innstæður á Icesave-reikningum í þjóðunum tveimur eftir fall Landsbankans. Þau hafa síðan farið fram á að Íslendingar endurgreiði þeim um 650 milljarða króna auk fjármagnskostnaðar vegna þessa.

Samkvæmt síðasta eignarmati þrotabús Landsbankans á það eignir til að mæta um 94% af forgangskröfum í bú hans, sem eru að mestu vegna Icesave-reikninganna. Því er ljóst að þorri upphæðarinnar mun koma frá búinu. Íslensk stjórnvöld hafa tvívegis náð samkomulagi við Breta og Hollendinga um greiðslur á því sem upp á vantar og fjármagnskostnaði. Þau voru bæði felld í þjóðaratkvæðagreiðslum, síðast í apríl 2010.

Loka viðvörun ESA

ESA sendi íslendingum bréf í maí 2010 þar sem sú skoðun stofnunarinnar að Íslandi eigi að greiða Bretum og Hollendingum til baka vegna lágmarkstryggingarinnar var lýst. Samkvæmt niðurstöðu eftirlitsstofnunarinnar þá braut Ísland tilskipun Evrópusambandsins um innstæðutyggingar. Það sé brot á samningnum um Evrópska Efnahagssvæðið (EES).

Í morgun sendi stofnunin síðan  lokaviðvörunarbréf til íslenskra stjórnvalda þar sem þeim var tilkynnt um að ef þau verða ekki við tilmælum ESA um að greiða Bretum og Hollendingum til baka muni stofnunin hugleiða að fara með málið fyrir EFTA-dómstólinn.

Segja íslensk stjórnvöld hafa mismunað á grundvelli þjóðernis

Athygli vekur að í bréfi ESA er íslenskum stjórnvöldum einnig gefið að sök að hafa mismunað innstæðueigendum eftir þjóðerni með því að tryggja allar innlendar innstæður við bankahrunið og færa þær í nýja banka, en skilja allar erlendar innstæður íslensku bankanna eftir.  Það sé í andstöðu við tilskipun um innstæðutryggingar sem Íslendingar hafi undirgengist þegar EES-samningurinn var fullgildur.

Í tilkynningu á heimasíðu ESA er haft eftir Per Sanderud, forseta stofnunarinnar, að „Ísland verður að fylgja þeim skuldbindingum sem það hefur undirgengist með EES-samningnum. Það verður að tryggja endurgreiðslu til allra innstæðueigenda.“