*

laugardagur, 31. júlí 2021
Innlent 7. maí 2013 16:15

ESA segir trassaskap Íslendinga áhyggjuefni

Íslendingar eiga tvö af hverjum þremur málum sem varða tafir á innleiðingu EES-reglna. Forseti ESA segir þetta áhyggjuefni.

Jón Aðalsteinn Bergsvein
Oda Helen Sletnes, forseti ESA.
Aðsend mynd

Ísland átti tvö af hverjum þremur málum sem komu inn á borð Eftirlitsstofnunar EFTA (ESA) í fyrra vegna tafa á innleiðingu nýrra EES-reglugerða innan EFTA-ríkjanna. Oda Helen Sletnes, forseti ESA, er harðorð í garð þeirra sem uppvísir eru að því að innleiðing á tilskipunum og reglugerðum EES-ríkjanna eru ekki lögteknar innan þeirra tímamarka sem kveðið er á um í EES-samningnum. Það veldur áhyggjum, að hennar mati. Nærri því 300 ný mál af þessum toga voru stofnuð hjá ESA í fyrra. Samkvæmt tölum ESA eru málin sem tengjast Íslandi um 200 talsins.

Sletnes ritar formála að nýjustu ársskýrslu ESA fyrir síðasta ár. Þar segir orðrétt:

„Það er grundvallarforsenda fyrir þátttöku EFTA-ríkjanna í starfsemi innri markaðarins að ekki verði tafir á gildistöku og framkvæmd sameiginlegra reglna í Evrópska efnahagssvæðinu. Góður árangur af því samstarfi næst ekki nema stjórnvöld séu vakin og sofin yfir því verkefni að viðhalda jöfnum samkeppnisskilyrðum á öllu efnahagssvæðinu. Innri markaðurinn verður að vera á borði, ekki aðeins í orði [...].“

Hún heldur áfram: 

„Á árinu 2012 varð þess því miður vart að æ fleiri tilskipanir og reglugerðir væru ekki lögteknar innan þeirra tímamarka sem kveðið er á um í EES-samningnum, og er það áhyggjuefni. Stigatafla innra markaðarins fyrir árið 2012 veldur miklum vonbrigðum að því er varðar EFTA-ríkin. Stjórnvöld í EFTA-ríkjunum verða að taka fulla ábyrgð á því að skuldbindingum samkvæmt EES-samningnum sé fullnægt á réttum tíma.