Innanbúðarmálin verða fyrirferðarmikil á vettvangi Evrópusambandsins (ESB) á næstu sex mánuðum. José Manuel Barroso, forseti framkvæmdastjórnar sambandsins, reynir nú að tryggja sér endurkjör til næstu fimm ára í embættið og samkvæmt breska blaðinu Financial Times er Fredrik Reinfeldt, forsætisráðherra Svíþjóðar, mjög áhugasamur um að sú skipan gangi hratt fyrir sig.

Ástæðan fyrir því er sú að stærri fiskar bíða steikingar á pönnunni þar sem í haust mun koma í ljós hver örlög Lissabon-sáttmálans verða. Írar munu ganga til kosninga um Lissabon-sáttmálann í október. Ljóst er að samþykki Írar sáttmálann muni fátt koma í veg fyrir að hann taki gildi.

Það þýðir að aðildarríki ESB þurfa að koma sér saman um kjör fyrsta forseta sambandsins en samkvæmt sáttmálanum er um pólitískt leiðtogaembætti að ræða og verður kjörtímabilið 30 mánuðir.

Sænsk stjórnvöld hafa nú þegar boðað til leiðtogafundar aðildarríkjanna seint í október og á honum á að fjalla um forsetakjörið.

Innleiðing Lissabon- sáttmálans mun jafnframt kalla á umræður um skipun í fleiri embætti en hann hefur meðal annars í för með sér stofnun nýs embættis utanríkismálastjóra ESB sem verður mun valdameira en núverandi embætti sem Spánverjinn Javier Solana hefur gegnt síðan árið 1999.

Nánar er fjallað um þetta mál í erlendri fréttaskýringu í Viðskiptablaðinu í dag.