Framkvæmdastjórn Evrópubandalaganna hyggst nú skoða samning á milli flugrisanna British Airways, American Airlines og Iberia.

Á fréttavef breska ríkisútvarpsins, BBC, er haft eftir talsmanni Evrópusambandsins að aðgerðin sé ekki yfirtökurannsókn og hún hafi engan sérstakan tímaramma.

Felur rannsóknin í sér hvort félögin hafi virt viðteknar samkeppnisreglur. Eðlilegt sé að slíkir samningar séu skoðaðir og segir talsmaður ESB að það sé ekki gert í kjölfar kvartana.

Flugfélagið Virgin Atlantic hefur látið í ljós áhyggjur sínar af samningi fyrrnefndra flugfélaga.

Samvinna British Airways og American Airlines og Iberia þrengir verulega að lagaramma Bandaríkjanna en þarlend lög koma í veg fyrir að erlendir aðilar eignist stór bandarísk flugfélög.

Samvinna British Airways og American Airlines hefur í för með sér að félögin geta komið sér saman um ferðir, áætlanir og áætlunarstaði í sameiningu. Samningurinn gerir spænska flugfélaginu Iberia einnig kleift að vinna með British Airways.

Samvinnan kemur mögulega í veg fyrir samkeppni á flugmarkaði og segja talsmenn Virgin að með honum skapist allsráðandi ofurvald í flugi á milli Evrópu og Ameríku.

BA og AA vinna nú þegar að verkefnum í sameiningu og mun samningurinn, ef hann verður samþykktur, gera þá vinnu enn skilvirkari sem og draga úr kostnaði.