Lagadeild Háskólans í Reykjavík hefur hlotið 120 milljóna króna rannsóknarstyrk frá Evrópusambandinu. Um er að ræða styrk úr 7. rannsóknaráætlun Evrópusambandsins.

Þetta er langhæsti styrkur sem úthlutað hefur verið til íslensks verkefnis á sviði hug- og félagsvísinda. Þetta er einnig í fyrsta sinn sem íslenskur háskóli fær styrk úr rannsóknaráætlun Evrópusambandsins vegna rannsókna í  lögfræði, segir í fréttatilkynningu frá HR

Þórdís Ingadóttir, dósent við lagadeild Háskólans í Reykjavík, stýrir verkefninu í heild.  Samstarfsskólar Háskólans í Reykjavík eru Amsterdam University , Hebrew University í Jerúsalem og University College London .

Verkefnið ber heitið Impact of International Criminal Procedures on Domestic Criminal Procedures in Mass Atrocity Cases .   Í því er leitast við að meta áhrif alþjóðlegs refsiréttar og alþjóðadómstóla á landsrétt í málum er varða gróf og víðtæk mannúðar- og mannréttindabrot.  Markmiðið er að efla samspil landsréttar og þjóðaréttar á þessu sviði, auka áhrif og virkni alþjóðadómstóla og bæta þar með viðbrögð landsréttar við slíkum brotum. Verkefnið stendur yfir í þrjú ár, frá 2008 til 2010.