Útlit er fyrir að Frakkar fái sínu framgengt í nýjum reglum um kaupaukakerfi evrópskra banka. Í frétt Financial Times segir að Frakkar vilji að evrópuþingið samþykki reglur sem muni gera bönkum mjög erfitt fyrir með að veita starfsmönnum bónusgreiðslur umfram venjulegar launagreiðslur. Bretland hefur verið mjög mótfallið slíkum reglum, en Þýskaland er núna tilbúið að sætta sig við kaupaukareglur Frakka til að geta komið í gegnum þingið nýjum reglum um eiginfjárhlutfall evrópskra banka.

Reglurnar sem Frakkar vilja setja munu leggja bann við því að bónusar verði hærri en sem nemur venjulegum launum, sem þýðir að í mesta lagi geti bankar tvöfaldað greiðslur til starfsmanna sinna. Hlutfall bónusa á móti launum megi tvöfalda að fengnu samþykki aukins meirihluta hluthafa.

Bretar eru nú að reyna að fá samþykki annarra ríkja Evrópusambandsins fyrir því að hækka hlutfallið, en ólíklegt þykir að það náist.