Forvarnarverðlaun Tryggingamiðstöðvarinnar, Varðbergið, voru í dag veitt í sjötta skipti og hlaut Eskja hf. Eskifirði þau að þessu sinni. Jafnframt var tveimur öðrum fyrirtækjum veitt sérstök viðurkenning fyrir forvarnir en þau eru Alsmíði ehf. og Borgarvirki ehf.

Varðbergið er veitt árlega þeim viðskiptavinum TM sem þykja skara fram úr á sviði forvarna gegn óhöppum og slysum. Ákvörðun um að veita Eskju hf. verðlaunin í ár byggist á mati sérfræðinga TM, sem telja forvarnir þar mjög góðar og að Eskja hf. sýni öðrum fyrirtækjum gott fordæmi að þessu leyti.

Afhending verðlaunanna beinir sjónum að mikilvægi öflugra forvarna í útgerðar- og fiskvinnslufyrirtækjum og hefur Eskja hf. á liðnum árum sýnt mikið frumkvæði í öryggismálum sínum og skarað fram úr hvað þau varðar. Eskja hf. hefur lagt mikla áherslu á öryggisfræðslu sjómanna og hafa sjómenn á skipum félagsins reglulega sótt námskeið hjá Slysavarnaskóla sjómanna. Fyrir utan miklar endurbyggingar skipanna hefur félagið kappkostað að sinna vel eftirliti og viðhaldi skipa sinna. Aðbúnaður um borð í skipunum er með því besta sem gerist.

Í fiskimjölsverksmiðju Eskju hf. hafa ýmsar úrbætur verið gerðar í eldvörnum á síðustu árum til mikilla hagsbóta. Það sama má segja um frystihús félagsins, en þar hafa talsverðar lagfæringar átt sér stað. Stjórnendur Eskju hafa brugðist skjótt við þeim ábendingum sem fram hafa komið frá sérfræðingum TM um úrbætur í öryggismálum. Umgengni er yfirleitt til fyrirmyndar.

Það var Gunnar Felixson, forstjóri TM, sem veitti verðlaunin og kom fram í máli hans við afhendingu að hann vonaðist til að þessi verðlaun yrðu hvatning fyrir önnur fyrirtæki og sá heiður sem TM sýndi þeim sem þau hljóta, hvetji þau til að halda áfram sínu góða starfi og gera jafnvel enn betur.

Varðbergið var veitt í fyrsta skipti árið 1999 en þá hlaut Slippstöðin á Akureyri verðlaunin, Borgarplast á Seltjarnarnesi fékk verðlaunin árið 2000, Umslag hf. í Reykjavík árið 2001, Hótel Óðinsvé árið 2002 og á síðasta ári féllu þau í skaut Ora ehf. í Kópavogi.

Í hvert sinn sem Varðbergið er veitt er hannaður sérstakur verðlaunagripur. Í ár var það myndlistamaðurinn Guttormur Jónsson sem hannaði gripinn.