Fjárfestingafélagið ESTIA hf. hefur gengið frá kaupum á 49% hlut í bátasmiðjunni Seiglu ehf., að því fram kemur í fréttatilkynningu.

Bátasmiðjan Seigla var stofnuð árið 1991 og var fyrst í viðgerðum og breytingum á trefjaplastbátum. Undanfarin ár hefur hins vegar nýsmíði á hraðfiskibátum undir nafninu SEIGUR verið meginstarfsemi fyrirtækisins.

Fyrirtækið er staðsett í Reykjavík en fyrirhugað er að lykilstarfsmenn og hugsanlega aðrir starfskraftar muni flytja með fyrirtækinu til Akureyrar á haustmánuðum.

Í sumar verður byggt 700 m² hús á athafnarsvæði Slippsins. Einnig mun verða náinn samvinna á milli Slippsins Akureyri ehf. og Seiglu ehf. þar sem sérþekking Slippsins Akureyri ehf. á skipasmíðum verður nýtt.

Seigla ehf. á helmings hlut í Siglufjarðar Seig ehf. sem hefur meira einbeitt sér að smíði minni báta af gerðinni Seigur. Með flutningi á Seiglu ehf. til Akureyrar munu opnast nýir möguleikar á nánara samstarfi fyrirtækjanna tveggja.

Fjárfestingafélagið ESTIA hf. í eigu nokkurra Akureyringa og annarra aðila en félagið hefur m.a. það markmið að fjárfesta í fyrirtækjum á Akureyri. Fjárfestingarfélagið hefur m.a. fjárfest í Slippnum Akureyri ehf., DNG ehf. og sjónvarpsstöðinni N4.

Í tilkynningunni segir að ESTIA hf hafi á undanförnum mánuðum komið að stofnun eða stuðlað að uppbyggingu fyrirtækja á Akureyri með því að tryggja og flytja eignarhald þeirra á svæðið. Þannig hafa um 100 störf verið tryggð á svæðinu með aðild ESTIA hf. að þessum félögum.