Dagur B. Eggertsson, fráfarandi borgarstjóri, sagði í beinni útsendingu Sjónvarpsins í kvöld að hann ætti því ekki að venjast að menn sem hann væri í daglegum samskiptum við segði sér ekki satt.

Vísaði hann þar til Ólafs F. Magnússonar, borgarfulltrúa Frjálslyndra og óháðra, sem verður borgarstjóri á næstu dögum í stað Dags.

Ólafur hefði fullvissað sig fyrr í dag að hann myndi ekki taka tilboði sjálfstæðismanna um borgarstjórastól í nýjum meirihluta.

Margrét Sverrisdóttir, varaborgarfulltrúi Frjálslyndra og óháðra, sagði að hún myndi sitja áfram sem varamaður Ólafs. „Ég er óháður borgarfulltrúi og hef verið um nokkra hríð. Það breytist ekki neitt."

Björn Ingi Hrafnsson, borgarfulltrúi framsóknarmanna, sagði að sú lausung sem hér væri að myndast með reglubundnum hætti væri ekki til þess að efla traust borgarbúa á borgarmálum. „Þetta fer að verða svolítið farsakennt," sagði hann.

Svandís Svavarsdóttir, borgarfulltrúi VG, sagði að samstarf í meirihluta stæði og félli með heilindum. Það væri dapurlegt að samstarf fráfarandi meirihluti skyldi enda á óheilindum.

Hún rifjaði upp að Ólafur F. hefði áðir staðið upp í viðræðum um nýjan meirihluta og farið í kaffi, en ekki komið þaðan aftur. Nú væri hann aftur genginn út. Hún sagði að það væri að verða til áhugaverð sería sem hann ætti að baki á sínum stjórnmálaferli.