„Éttann sjálfur," kallaði Steingrímur J. Sigfússon, formaður Vinstri grænna, til Björns Bjarnasonar dómsmálaráðherra í umræðum á Alþingi í dag, þegar Björn gerði að umtalsefni umkvartanir Steingríms vegna fyrirhugaðrar rannsóknarnefndar.

Þingmenn ræða nú vantrausttillögu stjórnarandstöðunnar á ríkisstjórnina.

Björn Bjarnason gerði í sínu máli meðal annars að umtalsefni að Steingrímur væri að kvarta yfir því að ekki væri búið að skipa rannsóknarnefnd til að rannsaka bankahrunið.

Björn kvaðst í ræðu sinni undrast þann málflutning í ljósi þess að málið hefði tafist vegna endalausra fyrirvara af hálfu formanns Vinstri grænna.

Þegar þar var komið við sögu kallaði Steingrímur utan úr þingsal: „Éttann sjálfur." Síðan gekk Steingrímur upp að ræðupúltinu, þar sem Björn stóð, og horfði á hann. Gekk síðan til Geirs H. Haarde forsætisráðherra þar sem hann sat, potaði í hann og sagði eitthvað við hann.

Ragnheiður Ríkharðsdóttir, sem stýrði fundi, bað þingmanninn um að viðhafa ekki svona orðbragð.

Verði ekki kattaþvottur fyrir Sjálfstæðisflokkinn

Steingrímur sagði í þingumræðunum síðar um daginn að rannsóknin á bankahruninu þyrfti að vera alvöru rannsókn en ekki kattaþvottur fyrir Sjálfstæðisflokkinn.

(Fréttin var uppfærð kl. 18.24).