Þessa daganna stendur yfir sýning á verkum Evu G. Sigurðardóttur myndlistarmanns í Artóteki  Borgarbókasafns Reykjavíkur. Eva G. Sigurðardóttir útskrifaðist úr Myndlista- og handíðaskóla Íslands árið 1989 og stundaði framhaldsnám í myndlist í École des Beaux Arts de Lyon í Frakklandi 1990-1991. Kennaranámi lauk hún frá Listaháskóla Íslands vorið 2005.

Í tilkynningu vegna sýningarinnar segir að Eva hafi haldið átta einkasýningar og tekið þátt í samsýningum á Íslandi, Norðurlöndunum og í Bandaríkjunum. Málverk hennar hafa að mestu verið hlutbundin en á síðustu árum hafa þau færst meira yfir í óhlutbundin form auk þess sem hún vinnur nú einnig með texta. Eva hefur alltaf unnið með innsetningar ásamt málverkinu. Í kynningarbæklingi Artóteks um Evu segir hún um myndlist sína: “Tilveran í sinni víðtækustu mynd hefur verið mitt viðfangsefni. Hér vinn ég með og útfrá texta, setningu, Johns Lennons  „All you need is love“. Þetta er leikur, íhugun, könnun og leit. Nokkurs konar tilveru leiðangur sem á sér hvorki upphaf né endi. Ég fjalla um tilveruna, um heildina jafnt sem smáatriðin. Samhengið og samhengisleysið.“ Á sýningunni eru níu málverk unnin í akrýl og með blandaðri tækni á striga, teikningar og innsetningar. Sýningin stendur fram í janúar. Opið er mánudaga kl. 10-21, þriðjudaga-fimmtudaga kl. 10-19, föstudaga kl. 11-19 og um helgar kl. 13-17.