Eva Joly, sem er ráðgjafi sérstaks saksóknara við rannsókn á efnahagshruninu, lítur svo á að málefni Sigurðar Einarssonar fyrrverandi stjórnarformanns Kaupþings sé ekki stórt vandamál. „Við vitum hvernig við tökum á því," sagði hún í viðtali við Egil Helgason í Silfri Egils í dag. Hún útskýrði það samt ekki frekar hvernig á málinu yrði tekið.

Sigurður Einarsson hefur neitað að koma til Íslands í skýrslutöku hjá sérstökum saksóknara nema gegn vilyrði um að hann verði ekki handtekinn. Hefur hann ráðið sér lögmann í London til að gæta hagsmuna sinna í þessari deilu við embættið. Hefur hann fyrir vikið verið eftirlýstur af Interpol en ekki verið handtekinn og fluttur til Íslands.

Eva Joly sagði við Egil að vandamálið fælist ekki í framsalssamningum milli Íslands og Bretlands. Þetta snérist um bresk lög og hvað breskum stjórnvöldum væri heimilt að gera samkvæmt þeim. Þar sé ekki hægt að handtaka menn til að færa þá í skýrslutöku á Íslandi. Það útilokar samt ekki að hægt er að handtaka Sigurð ytra og framselja hann til Íslands á síðari stigum rannsóknarinnar.