Evran hefur aldrei verið jafn há gagnvart krónu og í lok dags, að sögn greiningardeildar Kaupþings, en gjaldmiðilinn var tekinn upp árið 1999. Vísitala íslensku krónunnar fór síðast yfir 129 stigin í júlí árið 2006.

Gengi íslensku krónunnar veiktist um 1,7% prósent í dag. Fór evran yfir 98 krónur innan dags en endaði í 97,6, að sögn greiningardeildarinnar.

Fjárfestar gera áfram ráð fyrir sviptingum á mörkuðum

"Einn af helstu mælikvörðum á áhættufælni fjárfesta er VIX vísitalan sem mælir fólgið flökt í framtíðarsamningum á S&P500 hlutabréfavísitöluna," segir greiningardeildin. "VIX hefur hækkað hratt upp á síðkastið og stendur í raun á svipuðum slóðum og í upphafi undirmálslánakrísunnar í sumar. Á þessu má sjá að fjárfestar gera áfram ráð fyrir töluverðum sviptingum á mörkuðum. Við slíkar aðstæður hafa hávaxtagjaldmiðlar eins og krónan tilhneigingu til að veikjast og lágvaxtamyntir eins og japanska jenið og svissneski frankinn til að styrkjast – sem m.a. skýrist af því að fjárfestar færa fjármagn frá áhættusamari eignum yfir í áhættuminni eignir."

Lækkun stýrivaxta ekki nóg

Bandaríski seðlabankinn lækkaði óvænt vexti í gær um 75 punkta. "Svipuð ráðstöfun í ágúst leiddi til þess að markaðir hresstust mjög í kjölfarið. Nú virðist lækkunin hins vegar ekki gera sama gagn, en lækkun var á helstu erlendu hlutabréfamörkuðum í dag. Skýringin virðist vera sú að markaðsaðilar telji horfur í bandaríska hagkerfinu það slæmar að lækkun stýrivaxta ein og sér dugi ekki til. Því virðist sem væntingar um erfiða tíma séu fastari í sessi nú heldur en í sumar," segir greiningardeildin.