Hlutabréf hækkuðu í Evrópu í dag, fimmta viðskiptadaginn í röð, en að sögn Reuters fréttastofunnar voru það helst orku- og tæknifyrirtæki sem leiddu hækkanir dagsins.

FTSE 300 vísitalan, sem mælir helstu hlutabréfavísitölur í Evrópu, hækkaði um 1,7%. Vísitalan lækkaði um 45% á síðasta ári en hefur að vísu hækkað um 16% eftir að hafa náð um 5 ára lágmarki í nóvember síðastliðnum.

Eins og fyrr segir hækkuðu tæknifyrirtæki nokkuð í dag og þar munaði mestu um hækkun símafyrirtækja. Þannig hækkaði Swisscom um 5,2%, Vodafone um 4,3, Cable and Wireless um 4,2% og Portugal Telecom um 3,2%.

Í Lundúnum hækkaði FTSE 100 vísitalan um 0,4%, í Amsterdam hækkaði AEX vísitalan um 1,4% og í Frankfurt hækkaði DAX vísitalan um 0,2%.

Í París hækkaði CAC 40 vísitalan um 0,3% og í Sviss hækkaði SMI vísitalan um 4%.

Í Kaupmannahöfn hækkaði OMXC vísitalan um 4,8%, í Stokkhólmi hækkaði OMXS vísitalan um 0,3% og í Osló hækkaði OBX vísitalan um 1,7%.