Hlutabréf hafa hækkað í Evrópu það sem af er degi og eru það helst bankar og fjármálafyrirtæki sem leiða hækkanir dagsins að sögn Reuters fréttastofunnar.

Þannig hefur breski bankinn HBSC og franski bankinn Credit Agricole hækkað um tæp 3% í morgun en mest hefur þýski bankinn Deutsche Bank hækkað eða um 5% eftir að bankinn tilkynnti í morgun að hagnaður hans á öðrum ársfjórðungi yrði betri en gert hafði verið ráð fyrir og bankinn þyrfti ekki að auka hlutafé sitt.

Síðast í gær gekk sá orðrómur í þýskum fjölmiðlum að afskriftir bankans á árfjórðungnum yrðu talsverðar og við það lækkaði bankinn töluvert.

Þá hefur lyfjafyrirtækið AstraZeneca hækkað um 6,2% eftir að hafa undirritað samning við heilbrigðisyfirvöld í Bandaríkjunum um sölu á geðlyfinu Seroquel en frá þessu er greint á fréttavef Reuters.

FTSEurofirst 300 vísitalan hefur hækkað um 0,6% það sem af er degi.

Í Lundúnum hefur FTSE 100 vísitalan hækkað um 1%, í Amsterdam hefur AEX vísitalan hækkað um 0,3% og í Frankfurt hefur DAX vísitalan hækkað um 0,7%.

Í París hefur CAC 40 vísitalan hækkað um 0,5% og í Sviss hefur SMI vísitalan hækkað um 1,3%.

Í Kaupmannahöfn hefur OMXC vísitalan hækkað um 0,9%, í Osló hefur OBX vísitalan hækkað um 1,9% og í Stokkhólmi hefur OMXS vísitalan hækkað um 1,5%.