Hlutabréfamarkaðir hækkuðu lítillega í Evrópu í dag eftir að hafa lækkað við opnun í morgun en að sögn Reuters fréttastofunnar binda fjárfestar vonir við mögulegar björgunaraðgerðir til handa bílaiðnaði í Bandaríkjunum.

FTSE 300 vísitalan, sem mælir helstu hlutabréfavísitölur Evrópu, hækkaði um 1,4% í dag en hafði um tíma lækkað um 1,8%. Vísitalan, sem hækkaði um tæp 7% í gær, hefur engu að síður lækkað um 42% það sem af er þessu ári.

Það voru bílaframleiðendur sem leiddu hækkanir dagsins að sögn Reuters fréttastofunnar. Þannig hækkuðu BMW, Fiat, Volkswagen og Daimler á bilinu 2% - 5,1%.

Í Lundúnum hækkaði FTSE 100 vísitalan um 2,1%, í Amsterdam hækkaði AEX vísitalan einnig um 2,1% og í Frankfurt hækkaði DAX vísitalan um 1,3%.

Í París hækkaði CAC 40 vísitalan um 1,5% og í Sviss hækkaði SMI vísitalan um 0,5%.

Í Kaupmannahöfn hækkaði OMXC vísitalan um 1,2%, í Stokkhólmi hækkaði OMXS vísitalan um 3% og í Osló hækkaði OBX vísitalan um 1,4%.