Metvöxtur var í útlánum á evrusvæðinu janúar. Samkvæmt hagtölum Seðlabanka Evrópu jukust útlán til fyrirtækja – annarra en fjármálafyrirtækja – um 14,6% á ársgrundvelli í mánuðinum. Þykir þetta vera sterk vísbending um ónæmi myntsvæðisins fyrir lausafjárþurrðinni og óróanum sem hefur ríkt á fjármálamörkuðum.

Útlánin hafa ekki aukist jafnmikið frá því að evran var tekin upp árið 1999, en þau jukust um 14,5% í desember. Tölurnar um útlánaaukninguna birtust degi eftir að mæling á væntingavísitölu stjórnenda í þýsku atvinnulífi sýndu fram á hækkun í febrúar. Kom sú mæling fjárfestum á óvart en ekki hafði verið gert ráð fyrir að bjartsýni færi vaxandi vegna óróleikans á fjármálamörkuðum.

Aukning á sér stað í útlánum þrátt fyrir að evrópskir bankar og fjármálastofnanir hafi haldið að sér höndum og geri jafnframt meiri kröfur til lántakenda. Bendir það til þess að stjórnendur fyrirtækja hyggist ekki draga úr fjárfestingu og stækkunaráformum þrátt fyrir dökkar efnahagshorfur í Bandaríkjunum og afar sterkt gengi evru gagnvart Bandaríkjadal.

Nánar er fjallað um málið í Viðskiptablaðinu í dag. Áskrifendur geta lesið blaðið á pdf-formi hér á vefnum. Þeir áskrifendur sem ekki hafa sótt um aðgangsorð til að lesa blaðið á vefnum geta gert það hér .