Á árinu 2015 fæddust færri en létust í Evrópusambandinu. Var náttúruleg fjölgun íbúa sambandsins neikvæð í fyrsta skipti í sögunni, er um 5,1 milljón barna fæddust en um 5,2 milljónir manns létust. Samt sem áður fjölgar íbúum sambandsins um 1,8 milljón á árinu, sem kemur til af innflutningi fólks.

Fjölmennustu ríki sambandsins eru Þýskaland með 82,2 milljónir íbúa, Frakkland með 66,7 milljónir, Bretland með 65,3 milljónir og Ítalía með 60,7 milljónir, en samanlagt eru íbúar þessara ríkja meira en helmingur íbúa sambandsins.

Fólksfækkun ef ekki fyrir innflytjendur

Fæddust um 40 þúsund færri börn í sambandinu árið 2015 en árið á undan. Af fjölmennustu ríkjunum má nefna að íbúum Þýskalands fjölgaði um 11,8 af hverjum 1.000 íbúum meðan náttúruleg fækkun nam 2,3 á hverja 1.000 íbúa.

Í Frakklandi var náttúruleg fjölgun 3 á hverja 1.000 íbúa en heildarfjölgun 3,7. Í Bretlandi var fjölgunin 8,8 á hverja 1.000 íbúa en náttúrulega fjölgunin einungis 2,7 meðan á Ítalíu fækkaði íbúum af náttúrunnar hendi um 2,7 á hverja 1.000 íbúa meðan heildarfækkunin nam 2,1 á hverja 1.000 íbúa.

Mest fjölgun á Írlandi

Var fæðingartíðnin hæst í Írlandi eða 14,2 börn á hverja 1.000 íbúa, Frakklandi með um 12, Bretland 11,9 og Svíþjóð með 11,7% á hverja 1.000 íbúa. Lægsta fæðingartíðnin var í Ítalíu með 8 börn á hverja 1.000 íbúa, Portúgal með 8,3 og Grikklandi með um 8,5 börn á hverja 1.000 íbúa. Meðaltalið fyrir ESB var 10 börn á hverja 1.000 íbúa. Dánartíðnin var 10,3 á hverja 1.000 íbúa að meðaltali fyrir sambandið.

Þar sem fæðingartíðni var há og dánartíðni lág í Írlandi var mesta náttúrulega fjölgunin þar í landi eða 7,7 einstaklingar á hverja 1.000 íbúa, en næst á eftir var Kýpur með 3,9, Lúxemborg með 3,7, Frakkland með 3,0, Bretland með 2,7 og Svíþjóð með 2,4 einstaklinga á hverja 1.000 íbúa.

En þær þrettán þjóðir sambandsins sem bjuggu við náttúrulega fækkun var hún mest í Búlgaríu með fækkun um 6,2 á hverja 1.000 íbúa, Króatía og Ungverjaland með um 4, Rúmenía með 3,8 og Litháen með 3,5 og Lettland með um 3,3 á hverja 1.000 íbúa.