Bandarískur iðnaður horfði upp á mikinn samdrátt í júní. Annað eins hefur ekki sést þar í landi síðan í hryðjuverkaárásunum á Bandaríkin árið 2001. Framleiðsluvísitalan fór 53,5 punktum í 49,7 í nýliðnum mánuði. Þetta er mun meiri samdráttur en gert hafði verið ráð fyrir. Allar tölur undir 50 punktum benda til þess að kreppumerki séu komin fram.

Í netútgáfu breska dagblaðsins Guardian segir að ljóst sé að skuldakreppan í Evrópu, mikið atvinnuleysi þar og samdráttur í efnahagslífi Kína séu að nema land í Bandaríkjunum á nýjan leik og dragi landið inn í kreppu.

Guardian hefur þó eftir Paul Dales, hagfræðingi hjá alþjóðlega greiningafyrirtækinu Capital Economics, að allsendis óvíst sé hvort kreppa muni skella á í Bandaríkjunum á nýjan leik. Á hinn bóginn megi reikna með að draga muni úr væntingum um hagvöxt vestanhafs. Búast megi við að hann verði undir 1% á árinu vestra.