Exista BV er kaupandi að þeim bréfum sem skiptu um hendur í Bakkavör í dag samkvæmt tilkynningu til Kauphallarinnar. Rétt í þessu var félagið að flagga kaupum á 142.200.000 hlutum í Bakkavör sem keypt voru á genginu 55. Markaðsvirði er því ríflega 7,8 milljarðar króna.

Í flögguninni kemur fram sem athugasemd að Vátryggingafélag Íslands hf. á 32.625.824 hluti í Bakkavör Group hf., Líftryggingafélag Íslands hf. á 3.094.176 hluti og Vörður Íslandstrygging hf. á 327.900 hluti. Exista hf. á 100% hlutafjár í Vátryggingafélagi Íslands hf., 100% í Líftryggingafélag Íslands hf. og 56% í Verði Íslandstryggingu hf. Þessi félög voru í eigu VÍS eignarhaldsfélags hf. sem var í 100% eigu Exista hf. og hefur nú verið sameinað Exista hf. Um er að ræða 36.047.900 hluti í Bakkavör Group hf.

Hlutir í eigu fruminnherja og aðila sem eru fjárhagslega tengdir þeim, annarra en ofantaldra félaga, voru samtals 4.294.105, þar af 3.183.400 vegna framvirkra samninga.

Exista hf. er fruminnherji í Bakkavör Group hf. í krafti eignaraðildar Exista B.V. Exista B.V. er í 100% eigu Exista hf. en í stjórn Exista hf. sitja meðal annars Lýður Guðmundsson og Ágúst Guðmundsson sem stöðu sinnar vegna eru fruminnherjar í Bakkavör Group hf. Forstjórar Exista hf., Erlendur Hjaltason og Sigurður Valtýsson, eru jafnframt fruminnherjar í Bakkavör Group hf. Exista B.V. var fyrir ofangreind viðskipti eigandi 648.289.416 hluta í Bakkavör Group hf.