„Menn fara almennt ekki í málaferli nema þeir telji líkur á að fá réttindi sín virt. En eðli málsins samkvæmt er ávallt umtalsverð óvissa um niðurstöðu málsókna.“ Þetta segir Sigurður Nordal, framkvæmdastjóri Samskiptasviðs Exista í samtali við Viðskiptablaðið, aðspurður hverjar þeir telji að líkurnar séu á jákvæðri niðurstöðu í málinu.

Eins og greint var frá áðan hyggst Exista bíða niðurstöðu málaferla Kaupþings í Bretlandi áður en ákvörðun verður tekin um frekari málarekstur. Félagið var stærsti hluthafi bankans þegar hann féll.

Aðspurður um hvað gögnin sem breskir lögmenn félagsins hafa unnið feli nánar í sér segir hann: „Við getum ekki greint nákvæmlega frá þeim gögnum sem unnin hafa verið en þau eru ítarleg. Við höfum veitt Kaupþingi aðgang að öllum þessum gögnum og með þeim hætti lagt okkar af mörkum við að aðstoða bankann við málareksturinn.“

En mun Exista leiða málið áfram?

„Fyrir hönd eigenda gamla Kaupþings höfum við vissulega leitt málið og lagt vinnu og fjármagn í að kanna grundvöll þess að menn sæki rétt sinn í Bretlandi. Hins vegar styðjum við þá leið sem verið er að fara, þar sem Kaupþing hefur forystu í málarekstrinum og nýtur til þess stuðnings stjórnvalda.“