Eyjólfur Árni Rafnsson, var í dag endurkjörinn formaður Samtaka atvinnulífsins. Tilkynnt var um kjörið á aðalfundi SA fyrr í dag og hlaut Eyjólfur Árni 96,5% greiddra atkvæða og var þátttaka góð. SA greinir frá þessu í fréttatilkynningu.

Eyjólfur Árni ávarpaði fundinn og fjallaði m.a. um nýja kjarasamninga á almennum vinnumarkaði og horfurnar framundan.

Meðal þess sem Eyjólfur kom inn á í ræðu sinni var að það sé margt sem sýni hve viðkvæm staðan sé víða í atvinnulífinu. Gjaldþrot WOW og hópuppsagnir hafi verið áberandi í fréttum undanfarna daga.

„Vísitala efnahagslífsins er lægri nú en í mörg undanfarin ár - bæði þegar tekið er mið af stöðunni nú og hvernig búist er við að hún verði eftir sex mánuði en vísitalan tekur mið af mati stjórnenda fyrirtækja um stöðu og horfur í rekstrinum. Einnig kemur fram að mun fleiri stjórnendur búast við minni fjárfestingum á næstunni en að jafnaði. En nú geta stjórnendur fyrirtækja tekið mið af því að með kjarasamningunum hefur dregið mjög úr óvissu um þróun efnahagsmála næstu ára og miðað sínar áætlanir við það.“

Þá sagði hann að vissulega sé ljóst að launabreytingarnar komi misjafnlega við atvinnugreinar og þar með fyrirtækin og sum þeirra muni þurfa að grípa til ýmissa hagræðinga og aðgerða í sínum rekstri til að mæta þeim. Það sé líka ljóst að fyrirtækin þurfi að gæta mjög hófs um launabreytingar utan samninga því launaskrið muni leiða til hækkunar með svokallaðri launaþróunartryggingu sem kveðið er á um í samningunum.

Það sé því afar mikilvægt að í efri tekjuhópum fyrirtækjanna verði ekki farið fram úr þeim krónutöluhækkunum sem um hefur samist.