Ákveðið hefur verið að flýta sölu fjárfestingarfélagsins Eyris Invest á hollensku fyrirtækjunum Fokker Technologies og Stork. Fyrrnefnda fyrirtækið hannar, þróar og framleiðir íhluti í flugvélar fyrir stærstu flug­véla­framleiðendur heims ásamt því að veita þjónustu til rekstraraðila flugflota. Starfsmenn eru rúmlega 4.600 talsins. Stork þjónustar fyrirtæki í efna-, olíuhreinsunar-, olíu- og gasiðnaði. Starfsmenn eru staðsettir víða um heim og eru þeir 13.500 talsins. Eyrir Invest á þó ekki fyrirtækin með manni og mús heldur 17% hlut í félaginu London Acquisition, sem á og rekur Stork B.V, sem á Fokker Technologis og Stork.

Ekki liggur fyrir hvenær stefnt er á það innan Eyris Invest að selja hollensku eignirnar. Það gæti þó verið eftir 1-3 ár.

Fram kom í uppgjöri Eyris Invest sem birt var í dag að tap á fyrstu sex mánuðum ársins nam 42,7 milljónum evra, jafnvirði 6.570 milljóna króna. Til samanburðar tapaði félagið 25,9 milljónum evra á sama tíma í fyrra. Tapið skýrist að langstærstum hluta af gengisfall hlutabréfa Marel á árinu. Eyrir Invest er helsti hluthafi Marel með rétt tæpan 30% hlut í félaginu.

Á sama tíma var góður gangur í rekstri hollensku fyrirtækjanna og horfur almennt góðar.

Í uppgjörstilkynningu Eyris segir um þá ákvörðun að flýta sölu á fyrirtækjunum:

„Markmið Eyris er að hámarka virði til hluthafa við sölu þessara eigna.“.