Fjárfestingarfélagið Eyrir Invest hefur náð samkomulagi við Haf-funding, dótturfélag Glitnis, um uppgreiðslu láns og samhliða því losun á fjármunum úr bankanum.

Fram kemur í tilkynningu frá Eyri Invest að lánið hjá Haf-funding var upphaflega tekið árið 2007 og er það á lokagjalddaga í desember á þessu ári. Lánið er í fullum skilum og hefur meginhluti höfuðstólsins verið greiddur. Þá kemur fram í tilkynningunni að þar sem um lán í evrum sé að ræða þurfi formlegt samþykki Seðlabankans fyrir uppgreiðslu þess fyrir gjalddaga. Eyrir Invest hafi sent erindi til Seðlabankans þessa efnis 16. maí með beiðni um undanþágu til uppgreiðslu á láninu í samræmi við samkomulag við lánveitanda. Heimildin hefur hins vegar enn ekki fengist. Eftir sem áður hyggst Eyrir Invest greiða upp lánið í samræmi við skilmála skuldabréfanna og afskrá þau úr kauphöll í kjölfarið.