Fjárfestingafélagið Eyrir Invest tapaði rúmum 14,1 milljónum evra, jafnvirði 2,2 milljarða króna, á síðasta ári. Það er talsverður viðsnúningur frá árinu 2011 þegar félagið hagnaðist um 957 þúsund evrur.

Fram kemur í uppgjöri Eyris að nettóvirði eigna félagsins hafi um síðustu áramót numið 172 milljónum evra, jafnvirði 27,4 milljörðum króna. Til samanburðar nam virði 202 milljónum evra við lok árs 2011. Þá segir í uppgjörinu að 16 milljóna evru lækkun skýrist af stefnumarkandi ákvörðun um kaup á 9% af eigin bréfum.

Heildareignir Eyris námu 370 milljónum evra um áramótin síðustu. Á móti námu skuldir 197,7 milljónum evra. Eiginfjárhlutfall var 47%. Til samanburðar var það 51% við lok árs 2011.

Eyrir Invest er helsti hluthafi Marel og er auk þess hluthafi í tveimur iðnfyrirtækjum í Hollandi.

Í uppgjöri Eyris segir að á árinu hafi farið fram endurskipulagning á starfsemi Stork Technical Services og Fokker Technologies í tvö sjálfstæð félög með aðskilda langtíma fjármögnun. Virðismat félaganna var fært niður með tilliti til rekstrarafkomu, nýrra efnahagsreikninga og virðismargfaldara á mörkuðum. Eyrir lagði fram 23 milljónir evra í nýtt hlutafé til Stork TS og Fokker í tengslum við endurfjármögnun þeirra.

Þá gaf Eyrir í febrúar á þessu ári út B-hlutabréf fyrir 16 milljónir evra og styrkti þar með fjárhagsstöðu sína sem því nemur. Samhliða tryggði Eyrir sér framlengingu 85% lána félagsins fram til áranna 2015 til 2018.

Uppgjör Eyris Invest