Miðillinn Medium hefur nú tryggt sér 50 milljóna Bandaríkjadala - eða 6,1 milljarða íslenskra króna - fjármögnun frá hópi fjárfesta. Meðal þeirra sem tóku þátt í fjármögnuninni var fjárfestingarfélag Marc Andreessen og Ben Horowitz, a16z. Auk þess tekur Horowitz sæti í stjórn fyrirtækisins.

Medium er vefmiðill sem gerir notendum sínum kleift að birta lengri texta - nokkuð eins og blogg. Stofnandi fyrirtækisins, Evan Williams, kom einnig að stofnun Twitter. Hugmyndin á bak við Medium var sú að hann vildi gera fólki kleift að tjá sig í löngu en auðlæsilegu textaformi.

Nú starfar félagið að því að gera stærri útgefendum kleift að birta efni á vefmiðlinum, sem gæti þjónað sem nýr tekjustraumur fyrir fyrirtækið. Það var stofnað árið 2012 og hefur vaxið í vinsældum síðan þá, en vefsíðan fær tugi milljóna heimsókna á mánuði hverjum.