Félag atvinnurekanda fagnar ákvörðun Þórdísar Kolbrúnar Reykfjörð Gylfadóttur, ferðamála-, iðnaðar-, og nýsköpunarráðherra, um að framkvæma samkeppnismat á rekstrarumhverfi ferðaþjónustu og byggingariðnaðar. Þetta kemur fram í frétt á heimasíðu FA. Gert er ráð fyrir því að verkefnið taki um 18 til 24 mánuði í framkvæmd.

„FA hefur undanfarin ár ítrekað hvatt til þess að slíku samkeppnismati sé beitt til að einfalda regluverk atvinnulífsins og meðal annars fundað um málið með fulltrúum OECD og Samkeppniseftirlitsins. Upptaka slíks samkeppnismats var ein af tillögunum í bréfi FA til Bjarna Benediktssonar, þáverandi forsætisráðherra, þar sem hvatt var til þess að stjórnvöld mótuðu nýja stefnu um einföldun regluverks atvinnulífsins,“ segir í fréttinni.

OECD hefur mótað verklag þegar kemur að samkeppnismati. Stjórnvöld eiga að geta beitt því til að efla samkeppni eða takmarka samkeppnishindranir sem geta stafað af lögum, reglum og stjórnvaldsfyrirmælum. Mun verklagið jafnframt koma í veg fyrir óþarfa reglubyrði á atvinnulífið sem getur falið í sér samkeppnishindranir.