Nýtt fyrirtæki Netgíró býður nú íslenskum neytendum einföld, fljótleg og örugg netviðskipti með nýrri tækni. Í henni felst að viðskiptavinir fá vörur sem þeir kaupa á netinu afhentar áður en þeir greiða fyrir þær.

Með Netgíró geta neytendur fengið lágmark 14 daga greiðslufrest frá pöntun. Netgíró sér um að greiða vöruna til kaupmanna og reikningur berst í heimabanka kaupanda. Aðstandendur fyrirtækisins segja að greiðsluformið sé einfalt og fljótlegt og þurfa viðskiptavinir ekki að gefa upp viðkvæmar upplýsingar þegar þeir versla á netinu.

„Þessi hugmynd hefur verið í Evrópu í dálítinn tíma, t.d. í Svíþjóð þar sem þetta hefur verið í nokkur ár. Þetta er sem sagt rlend hugmynd og það má segja að við höfum íslenskað hana,“ segir Andri Valur Hrólfsson, stjórnarformaður fyrirtækisins.

„Við erum búnir að prófa þetta hjá tveimur eða þremur kaupmönnum og það hefur gengið vel. Þannig að við höfum verið að kynna þetta fyrir kaupmönnum að undanförnu og okkur hefur verið mjög vel tekið,“ segir Andri Valur. Hann segir að Netgíró sé einungis miðað að netverslunum. Nú sé búið að semja við 20 kaupmenn sem eru með verslanir í stærri kantinum og verið sé að kynna þetta fyrirkomulag fyrir stærri verslunum.

Nú þegar hafa nokkrar matvöruverslanir tekið upp netverslun og Andri Valur segir að það fyrirkomulag sem Netgíró býður upp á geti vel hentað þeim. „Ég sé ekkert á móti því eins og þetta hefur verið notað erlendis, að fólk geti pantað matvörur á netinu og notað þetta fyrirkomulag svo til að greiða,“ segir hann. Hann segir að erlendis hafi þetta fyrirkomulag skilað söluaukningu á netinu fyrir kaupmenn.

Í tilkynningu frá Netgíró segir að undirbúningur að opnun fyrirtæksins hafi staðið yfir í tvö ár.