Umræða um góðæri og þenslu í íslensku viðskiptalífi hefur verið hávær að undanförnu. Krónan styrkist dag frá degi, ferðaþjónustan blómstrar og nýbyggingar virðast spretta upp hvarvetna. Nú er svo farið að margir hafa jafnvel líkt ástandinu við uppgangsárin fyrir efnahagshrunið. Að sögn ýmissa forsvarsmanna íslenskra verktakafyrirtækja er umræðan þó fjarri raunveruleikanum enda nái umræddur uppgangur aðeins til fárra byggingarverktaka. Vegna skorts á innviðaframkvæmdum og verkefnum tengdum vegagerð hefur verkefnastaðan gjarnan verið slæm og afkoma fyrirtækja neikvæð. Nokkurrar svartsýni gætir meðal framkvæmdaraðila og flestir gefa lítið fyrir yfirlýsingar stjórnmálaflokka um að fljótlega skuli ráðist í innviðauppbyggingu með tilheyrandi stórframkvæmdum.

Eitt versta árið verkefnalega séð

Af þeim fyrirtækjum sem Viðskiptablaðið hafði samband við er verktakafyrirtækið Véltækni minnst í umfangi, en fyrirtækið sérhæfir sig í vélsteypun kantsteina. Ólíkt öðrum fyrirtækjum sem skoðuð voru sýna árskýrslur fyrirtækisins tiltölulega litlar sveiflur í afkomu undanfarinna ára og stöðugan hagnað frá árinu 2012.

Kristinn Pétursson, forstjóri Véltækni, segir það útskýrast af því að í kjölfar efnahagskreppunnar hafi fyrirtækið tekið að sér verkefni í Noregi. „Ég fór í smá útrás til að bjarga rekstrinum og það dugði til að halda okkur réttu megin við núllið. Við unnum í Noregi á árunum 2012 til ársins í ár en hættum því þegar gengi norsku krónunnar féll gagnvart íslensku krónunni,“ segir Kristinn.

Hann segist ekki verða var við uppsveiflu hvað fyrirtæki hans varðar. „Við erum frekar aftarlega á merinni í framkvæmdaröðinni þannig að uppsveiflan er nú ekki komin til okkar ennþá. Undanfarin misseri hafa verið mjög róleg og svo er enn. Ég myndi segja að þetta sé eitt af verri árunum okkar verkefnalega séð,“ útskýrir Kristinn sem segist þrátt fyrir það vonast til þess að komandi ár verði betra en hin síðustu. Hann segist ekki hafa fundið fyrir skorti á vinnuafli enn sem komið er. „Ég bý svo vel að hafa í vinnu hjá mér fáa en trausta starfsmenn. En fari hlutirnir að glæðast og verkefnum að fjölga þá mun mannskapsleysið væntanlega koma til með að hrjá okkur eins og aðra.“

Stöðug barátta við að halda sér á floti

Forsvarsmenn annarra verktakafyrirtækja sem ekki starfa á sviði byggingarframkvæmda taka undir orð Kristins og segja rekstrarumhverfið í raun erfitt um þessar mundir. Verktakafyrirtækið Háfell sinnir verkefnum í jarðvinnu, gatnagerð og vegagerð. Félagið hefur ekki birt ársreikning fyrir árið 2015 en eldri ársreikningar sýna að fyrirtækið skilaði tapi á árunum 2012 til 2014. Þrátt fyrir það hefur tapreksturinn þó farið minnkandi milli ára.

Skarphéðinn Ómarsson, forstjóri Háfells, segir núverandi rekstrarumhverfi fyrirtækisins ekki gott og ekki í samræmi við þá góðærisumræðu sem sé ríkjandi í samfélaginu enda skortur á verkefnum. Þrátt fyrir yfirlýsingar stjórnmálaflokka um áætlanir um frekari fjárveitingar til innviðauppbyggingu á borð við vegagerð segist Skarphéðinn ekki bjartsýnn á að nokkuð komi til með að breytast. „Það er augljóslega löngu kominn tími á að ráðast í innviðauppbyggingu hvað vegakerfið varðar. Vegagerðin hefur varla boðið út verk að neinu ráði síðan fyrir hrun. En við erum ekki bjartsýn fyrir því að ráðist verði í raunveruleg verkefni þegar umræðan er ítrekað á þann veg það séu ekki til peningar og að það þurfi að greiða niður ríkisskuldir,“

segir hann og bætir við að hann telji árið 2016 koma til með að verða svipað og 2015. „Þetta er bara stöðug barátta við að halda sér á floti. Uppsveiflan er aðallega hjá byggingarverktökum og það virðist vera rífandi gangur hjá þeim,“ segir Skarphéðinn. Hann segir jafnframt að fyrirtækið hafi enn sem komið er ekki átt í erfiðleikum með að ráða starfsfólk.

Hörð samkeppni um útistandandi verkefni

Framkvæmdastjóri jarðvinnuverktakafyrirtækisins Suðurverk, Dofri Eysteinsson, tekur í sama streng og Skarphéðinn og segist ekki verða var við uppsveiflu annars staðar en hjá byggingarverktökum.

Nánar er fjallað um málið í Viðskiptablaðinu. Áskrifendur geta nálgast pdf-útgáfu af blaðinu með því að smella á hlekkinn Tölublöð.