Gengi hlutabréfa samfélagsmiðilsins Facebook hefur fallið um 2,44% í utanþingsviðskiptum á bandarískum hlutabréfamarkaði og stendur það nú í 37,27 dölum á hlut. Þetta er tæpum 30 sentum undir útboðsgengi með hlutabréfin í síðustu viku.

Gríðarleg eftirvænting hafði skapast í aðdraganda kauphallarskráningar Facebook á föstudag í síðustu viku, skráningunni líkt við það þegar Google fór á markað, og var búist við mikilli eftirspurn eftir hlutabréfum Facebook. Gengi þeirra í útboði var af þessum sökum skrúfað nokkrum sinnum upp, fór úr 28 dölum á hlut í 35 uns það lenti í 38 dölum í útboði á fimmtudag. Það rauk svo upp í 42 til 44 dali á hlut í fyrstu viðskiptunum á föstudag áður en það tók að lækka. Væntingar voru hins vegar um að gengið gæti farið upp í allt að 45 dali á hlut.

Í bandaríska netmiðlinum Barron's í dag er fjallað um kauphallarskráninguna. Þar segir að skráningin hafi verið klúður, verðmiðinn alltof hár og verði umsjónaraðilar fyrirtækisins að styðja við tæknirisann svo gengi lækki ekki frekar með tilheyrandi vonbrigðum fyrir fjárfesta.

Verðið of hátt

Greinarhöfundur Barron's segir hlutabréfaverð Facebook þurfa að lækka talsvert til að freista fjárfesta. Það sé enn of hátt miðað við að stjórnendum fyrirtækisins hafi ekki tekist að draga upp mynd af því hvernig Facebook ætli að afla tekna. Bent er á að miðað við gengið 38 dali á hlut jafngildi því að verðið sé 76-faldur væntur hagnaður Facebook á þessu ári. Til samanburðar eru verðmiðinn á Google, 600 dalir á hlut, mun hagstæðari eða 14-faldur væntur hagnaður ársins.