„Þetta var ekki ítarleg könnun. En Facebook fékk miklar ívilnanir í Svíþjóð og fór þangað,“ segir Einar Tómasson, verkefnisstjóri sem heldur utan um fjárfestingar tengdum gagnaverum á vegum Íslandsstofu. Greint var frá því á miðvikudag að Facebook hafi opnað fyrsta gagnaverið sitt. Það er í Luleå í Svíþjóð. Forsvarsmenn Facebook skoðuðu árið 2011 m.a. að reisa gagnaverið hér á landi. Netleitarrisinn skoðað sömuleiðis að reisa gagnaver hér um svipað leyti en ákvað á endanum að það mynda verða í Finnlandi.

Einar segir í samtali við vb.is Facebook-liða hafa skoðað fjölda landa og Ísland verið þar á meðal. Hann bendir á að það sem m.a. hafi spilað á móti hér hafi verið 25% virðisaukaskattur sem lagður var á þjónustu gagnavera auk þess sem Facebook hafi staðið til boða heilmiklar ívilnanir í Svíþjóð. Þar fékk fyrirtækið jafnvirði 1,8 milljarða íslenskra króna sem jafngildir 5% af heildarfjárfestingu fyrirtækisins.

Einar segir mikilvægt að halda áfram að kynna Ísland fyrir fyrirtækjum í upplýsingatækni og gera það vel.

„Þessir aðilar bíða ekki við græna hliðið . það þarf að fara út og sækja þá og kynna þeim landið,“ segir hann.

Samkvæmt nýrri skýrslu er Ísland góður kostur fyrir gagnaversiðnað og mikið hefur verið unnið í skattamálum tengdum gagnaverum.