Fréttir af því að innan dyra Facebook sé unnið að þróun farsíma undir merkjum samfélagsmiðilsins urðu ekki til þess að lyfta brúninni á eigendum hlutabréfa fyrirtækisins. Þvert á móti féll gengi hlutabréfanna um næstum sex prósent eftir að fjármálamarkaðir opnuðu vestanhafs í dag og skall gengi bréfanna í 30,1 dal á hlut. Það hefur aldrei verið lægra.

Eins og margítrekað hefur komið fram voru hlutabréf í Facebook skráð á markað vestra föstudaginn 17. maí síðastliðinn. Gengi hlutabréfanna skipti um hendur á genginu 32 dalir á hlut daginn áður en ruku upp í 45 dali á hlut þegar best lét á fyrsta viðskiptadegi.

Gengi hefur nær viðstöðulaust lækkað síðan þá með einstökum undantekningum. Miðað við gengið degi fyrir skráninguna er það 2,8% lægra nú en þá. Ef miðað er við fyrsta viðskiptadaginn nemur gengishrunið hins vegar tæpu 31%.

Svipaða sögu er að segja af markaðsverðmæti Facebook. Það var 104 milljarðar dala við upphaf fyrsta viðskiptadags. Síðan þá hafa einir 40 milljarðar fokið út í veður og vind. Það jafngildir rétt rúmlega þremur landsframleiðslum Íslands.