*

föstudagur, 10. júlí 2020
Innlent 11. september 2019 13:25

Fækkar um 2.000 í ferðaþjónustu

Árstíðasveifla og samdráttur í ferðaþjónustu gæti reynst vinnumarkaðinum snúið skv. skýrslu Arion banka

Ritstjórn
Þennan áratug hafa 40% allra nýrra starfa á landinu orðið til ferðaþjónustu.
Haraldur Guðjónsson

Greiningardeild Arion banka telur að ferðaþjónustutengd störf verði um 2.000 færri undir lok árs en á sama tíma í fyrra. Af þessum sökum muni atvinnuleysi stíga umfram sína hefðbundnu árstíðasveiflu og fara upp undir 4% undir lok árs. Þetta er meðal þess sem kemur fram í nýrri skýrslu deildarinnar, Ferðamannalandið Ísland. 

Skýrslan greinir m.a. frá því að frá árinu 2010 hafi 17 þúsund störf skapast í einkennandi greinum ferðaþjónustunnar. Þetta samsvari því að liðlega 40% allra nýrra starfa á landinu þennan áratuginn hafi orðið til ferðaþjónustu. Ferðaþjónusta treysti að miklu leyti á vinnuafl við verðmætasköpun og kröftugur vöxtur greinarinnar hafi því leitt til umtalsvert minni hagvaxtar á mann en hagvaxtar almennt.  „Þannig eru t.d. horfur á því að talsvert meiri samdráttur verði í landsframleiðslu á íbúa í ár heldur en í landsframleiðslu,“ segir í greiningunni. 

„Fjöldi ferðaþjónustutengdra starfa hefur gróflega tvöfaldast síðan árið 2010. Í kjölfar falls WOW air undir lok fyrsta fjórðungs fækkaði starfandi einstaklingum í ferðaþjónustu um ríflega 1.600 á öðrum fjórðungi í samanborið við annan fjórðung í fyrra. Þessi fækkun setur svip sinn á vinnumarkaðinn í heild en samdráttur í vinnuaflsfrekri grein líkt og ferðaþjónustunni hefur meiri áhrif á vinnumarkaðinn en samdráttur í öðrum greinum,“ segir ennfremur í skýrslu Greiningadeildar Arion banka.