Hagræðingarhópur ríkisstjórnarinnar hefur fengið umboð meðal annars til að leggja til fækkun ríkisstarfsmanna, að því er segir í frétt Fréttablaðsins.

Í erindisbréfi hópsins segir að honum sé ætlað að leggja til aðgerðir til að hagræða, forgangsraða og auka skilvirkni í rekstri stofnana ríkisins. Í þeirri vinnu sé nauðsynlegt að fara yfir stóra útgjaldaliði ríkisins, svo sem fjölda stöðugilda, skipulag, rekstur, innkaup og skoða hvort gera megi kerfisbreytingar sem leiði til aukinnar framleiðni og betri nýtingar fjármuna án þess að draga þrótt úr öllu kerfinu.

„Þessi hópur á að skoða langtímaáhrifin og reyna að hagræða á þann hátt að þjónusta við almenning verði að minnsta kosti jafngóð áfram og helst betri. Til langs tíma má hugsa sér að með sameiningu stofnana þá fækki ríkisstarfsmönnum en það er ekki gert ráð fyrir verulegum uppsögnum ríkisstarfsmanna enda er hagkerfið viðkvæmt fyrir slíku,“ segir Sigmundur Davíð Gunnlaugsson, forsætisráðherra í samtali við Fréttablaðið.