Haldinn var strandríkjafundur í London dagana 3. til 4. júní um framtíðar veiðistjórnun á norsk-íslenskri síld. Þá var haldinn í Edinborg strandríkjafundur um veiðistjórnun á kolmunna dagana 9. til 11. júní.

Á hvorugum fundinum náðist niðurstaða um skiptingu hlutdeildar þjóðanna í heildarveiðinni, samkvæmt tilkynningu frá atvinnuvegaráðuneytinu. Þar kemur fram að á fundinum um kolmunna hafi Færeyjar og Evrópusambandið lagt fram sameiginlega tillögu um skiptingu sem feli í sér stóraukinn hlut Færeyja og Evrópusambandsins á kostnað Íslands og Noregs, þó mest á kostnað Íslands.

Veldur þessi tillöguflutningur miklum vonbrigðum, að sögn ráðuneytisins, en stefnt er að framhaldi viðræðna um veiðistjórnun beggja stofna í lok júní.