Færeyska flugfélagið Atlantic Airway átti gott ár í fyrra og hagnaðist um 22,5 milljónir danskra króna á síðasta ári. Þetta jafngildir hálfum milljarði íslenskra króna. Atlantic Hagnaðurinn er um tvöfalt meiri en árið á undan en þá nam hagnaður fyrirtækisins 12,3 miljlónum danskra króna. Í uppgjöri flugfélagsins er haft eftir Magna Arge, forstjóra Atlantic Airways, að þetta sé besta ár flugfélagsins til þessa og það betri en búist hafi verið við. Tekist hafi að draga úr áhrifum aukins rekstrarkostnaðar með m.a. betri nýtingu sem hafi skilað sér í því að hver flugvél hafi skilað meiri tekjum en ári fyrr.

Fjórði og síðasti ársfjórðungur var hins vegar fyrirtækinu ekki hagstæður eins og árið en þá tapaði fyrirtækið 100 þúsund dönskum krónum eftir 4,8 milljóna króna hagnað á fjórðungnum árið 2010.

Í uppgjöri Atlantic Airways sem birt var í dag kemur fram að rekstrarhagnaður flugfélagsins hafi aukist um 7% á milli ára. Hann nam 74,4 milljónum danskra króna í fyrra samanborið við 69 milljónir árið 2010. Hagnaðurinn á fjórða ársfjórðungi nam 18 miljónum danskra króna samanborið við 12,4 milljónir árið 2010.

Flugfélagið flýgur m.a. á milli Færeyja og Íslands.

Fram kemur í uppgjörinu að verðhækkanir á flugvélaeldsneyti setti strik í reikninginn hjá Atlantic Airways. Verðið rauk upp um 32% frá fjórða ársfjórðungi 2010 og til loka síðasta árs.

Eigið fé Atlantic Airways, sem skráð er í Kauphöllina hér, nam 250 milljónum danskra króna í lok síðasta árs og var eiginfjárhlutfall félagsins 65%. Þessi sterka staða félagsins gerði það að verkum að stjórn flugfélagsins hefur lagt til að greiða út 7 milljónir danskra króna í arð vegna afkomunnar í fyrra. Það gera rúmar 156 milljónir íslenskra króna.