„Hvernig væri að nota tækifærið nú þegar lögfræðingar hjá sýslumönnum eru í verkfalli og færa þinglýsingar frá 19. öld yfir á 21. öld?“

Þetta segir Davíð Þorláksson héraðsdómslögmaður í stöðuuppfærslu á Facebook , en af henni má telja ljóst að honum misbjóði skriffinnska og seinagangur við þinglýsingar hjá sýslumannsembættum á Íslandi.

Davíð leggur fram hugmyndir þessu til lausnar.

„Til dæmis mætti gera eins og gert hefur verið með alþjóðlegar þinglýsingar vegna flugvéla þar sem það er miðlæg rafræn skrá, en engir skjalaskápar, engar biðraðir, engir stimplar og engir lögfræðingar. Notendur (sem gætu t.d. verið lögmenn og löggiltir fasteignasalar) myndu setja skjölin sín inn sjálfir og bera ábyrgð á þeim. Ein tölva myndi leysa af hólmi tugi ríkisstarfsmanna,“ segir Davíð.