Einstaklingar í vanskilaskrá, sem fyrirtækið Creditinfo heldur utan um, hafa ekki verið færri frá árinu 2011. Þannig voru þeir um 25.800 talsins í byrjun september, eða um 1.400 færri en á sama tíma í fyrra. Greint er frá þessu í Morgunblaðinu .

Þar kemur fram að nokkrum vikum fyrir efnahagshrunið 2008 hafi um 15.800 manns verið á vanskilaskrá. Þeir hafi svo orðið flestir árið 2013 þegar rúmlega 28 þúsund manns voru á skránni.

Brynja Baldursdóttir, framkvæmdastjóri Creditinfo, segir í samtali við Morgunblaðið að ný lög um neytendalán hafi haft í för með sér að lánveitendur kanni betur lánshæfi umsækjenda. „Þeir eru því almennt að byggja lánsákvarðanir á betri gögnum en áður,“ segir hún.