Kauphöll Íslands, Nasdaq OMX Iceland, vísaði 22 málum til Fjármálaeftirlitsins (FME) til frekari skoðunar á síðasta ári en alls voru 58 mál afgreidd hjá kauphöllinni á árinu. Málum kauphallar er skipt í tvennt. Annars vegar eru það mál vegna gruns um brot á reglum um upplýsingagjöf félaga á markaði (upplýsingaskyldueftirlit) og hins vegar eru það mál sem lúta að viðskiptum með verðbréf (viðskiptaeftirlit). Í fyrrnefnda flokknum voru 42 mál afgreidd.

Aðeins fimm gerð opinber

Af 42 málum tengdum upplýsingagjafabrotum fólu einungis 5 þeirra í sér opinbera áminningu á markaði. Páll Harðarson, forstjóri Kauphallar Íslands, segir að það fari eftir alvarleika brotsins hvort mál séu gerð opinber eða ekki. Þrettán mál voru þannig afgreidd með óopinberri áminningu. Því er hvorki Viðskiptablaðinu né öðrum en hlutaðeigandi kunnugt um hvaða félög voru áminnt með slíkum hætti.

„Þegar fyrirtæki er veitt óopinber áminning samsvarar það athugasemd um umgengni við reglur á markaði. Þetta er farvegur fyrir kauphöllina til að vara fyrirtæki við en einnig til að veita leiðbeiningar um góða markaðshegðun. Yfirleitt er um að ræða yfirsjónir, en þó ekki til að láta ótaldar,“ segir Páll í svari við fyrirspurn Viðskiptablaðsins um hvers vegna sumar áminningar eru opinberar en aðrar ekki.

„Opinberar áminningar eru alvarlegri fyrir fyrirtæki og fela í sér hnekki á orðspori sem er alvarlegt mál fyrir öll fyrirtæki. Hluthafar meta sjálfir í ljósi slíkra upplýsinga hvort þeir eru ánægðir með upplýsingagjöf eða starfsemi fyrirtækisins og aðrir markaðsaðilar, eins og fjölmiðlar, geta einnig veitt félaginu aðhald í sömu tilfellum,“ segir Páll ennfremur. Aðilum sem veittar voru opinberar áminningar á síðasta ári voru Bakkavör, Reykjanesbær, Reykjaneshöfn, Nýherji og Icelandic Group.

Nánar er fjallað um málið í Viðskiptablaðinu. Áskrifendur geta nálgast blaðið hér að ofan undir liðnum Tölublöð.