Samtök verslunar og þjónustu (SVÞ) hafa sent frá sér umsögn um frumvarp til laga um breytingu á áfengislöggjöf þar sem lagt er til að einkaleyfi ÁTVR á smásölu áfengis verði aflagt.

Í umsögninni fagna samtökin frumvarpinu og markmiði þess um afnám einkaleyfis ÁTVR á smásölu áfengis og sala þess verði gefin frjáls. Segir að þetta sé í samræmi við fyrri athugasemdir SVÞ um sambærileg þingmál sem lögð hafi verið fram á fyrri löggjafarþingum. Tillögur í frumvarpinu séu einnig í samræmi við áherslur SVÞ um að færa verkefni frá hinu opinbera til einkaaðila og að mati samtakanna er verslun með áfengi engin undantekning þar á.

Þá mun samþykkt frumvarpsins að mati SVÞ hafa góð áhrif á verslun á landsbyggðinni enda muni verslun með áfengi styrkja enn frekar starfsemi þessara aðila og rekstur verslana eflast. Til viðbótar benda SVÞ á það hagræði sem felst í breyttu fyrirkomulagi á þessu sviði en með því að færa smásölu áfengis frá ríkinu til verslana muni ákvörðun um staðsetningu áfengisverslana byggjast á markaðslegum og samkeppnislegum forsendum en ekki grundvallast á pólitískri ákvörðunartöku.

Hins vegar gagnrýna samtökin að samhliða frumvarpinu séu ekki boðaðar breytingar varðandi auglýsingabann á áfengi sem samtökin telja löngu úrelt, m.a. vegna núverandi markassetningar erlendra áfengisframleiðenda á Internetinu, í erlendum sjónvarpsútsendingum og öðrum hljóð-, prent- og myndmiðlum. Þá telja samtökin að aðgreining á sterku áfengi frá léttvíni og áfengum drykkjum og öli í verslunum sé illa rökstutt og kunni að vera illframkvæmanleg með hliðsjón af mismunandi getu verslana til að bregðast við slíkri aðgreiningu, m.a. að teknu tilliti til stærðar og umfangs verslunarýmis.

Umsögnina má lesa hér .