„Ég fagna öllum kröfum um að rannsókn fari fram á þeim umbreytingum sem orðið hafa á sparisjóðakerfinu og falli einstakra sparisjóða. Það er raunar nauðsynlegt að það sé gert,“ segir Guðjón Guðmundsson, framkvæmdastjóri Sambands íslenskra sparisjóða, í viðtali við Viðskiptablaðið.

Hann segir að þær umbreytingar sem nú eigi sér stað á fjármálakerfi landsins kalli á að sparisjóðakerfið verði rannsakað með það fyrir augum að fá niðurstöðu í það hvers vegna margir sparisjóðir, ekki síst þeir stærstu, fjarlægðust upprunalegt hlutverk sitt.

„Ég tel að það þurfi að líta nokkuð langt aftur til þess að skýra hvað aflaga fór. Álit Fjármálaeftirlitsins frá árinu 2002, þess efnis að leyfilegt væri að eiga viðskipti með stofnfé á yfirverði, þ.e. yfir uppfærðu nafnvirði stofnfjár, var að mínu áliti mjög áhrifamikið í þeirri atburðarás sem síðan átti sér stað,“ segir Guðjón.

Milljarðatap á lánveitingum til tólf einkahlutafélaga

Í kvöldfréttum Sjónvarpsins í dag, sunnudag, kom fram að Byr, Sparisjóður Mýrarsýslu og Sparisjóðurinn í Keflavík töpuðu ríflega átta milljörðum króna á lánveitingum til sömu tólf einkahlutafélaganna. Lánin voru veitt til að kaupa hlutabréf í Icebank af BYR og Spron, með bréfin sjálf að veði. Skömmu eftir söluna greiddi BYR sparisjóður eigendum sínum tæplega fjórtán milljarða króna í arð sem byggður var meðal annars á fölskum söluhagnaði vegna viðskiptanna.

Byr sparisjóður bókfærði ríflega fjögurra milljarða króna söluhagnað í bækur sínar vegna viðskiptanna, þrátt fyrir að hafa lánað fyrir kaupum á hlutabréfunum af sjálfum sér samkvæmt frétt Sjónvarpsins. Samkvæmt ársreikningi 2007 nam heildarhagnaður Byrs um átta milljörðum króna eftir skatta.

Samkvæmt gögnum sem fréttastofa Sjónvarpsins hefur undir höndum nam tap Byrs vegna þessara lánveitinga um fimm milljörðum króna en Sparisjóður Mýrarsýslu og Sparisjóðurinn í Keflavík töpuðu um einum og hálfum milljarði hvor. En allir þessir sparisjóðir eru nú gjaldþrota.