Ekki er útilokað að Malcolm Walker, stofnandi og forstjóri bresku matvörukeðjunnar Iceland Food, tryggi sér hlut skilanefnda Landsbankans og Glitnis í verslunni fyrir 800 milljónir punda, jafnvirði um 155 milljarða íslenskra króna. Walker, sem stofnaði verslunina fyrir 40 árum, og stjórnendur hennar, eiga saman 23% hlut í Iceland Foods á móti skilanefndinni.

Skilanefnd Landsbankans setti hlut sinn í Iceland Foods í söluferli í júlí í fyrra. Tilboð verða opnuð á morgun í annarri tilboðslotu í verslunina.

Fram kom í viðtali breska dagblaðsins Sunday Times við Walker um helgina að hann hafi landað vilyrði frá kanadíska lífeyrissjóðnum Alberta Investment Management fyrir láni upp á einn milljarð punda til að fjármagna kaup á hlut skilanefndarinnar. Breska dagblaðið Telegraph hefur hins vegar eftir heimildamönnum nánum Walker að svo sé ekki.

Walker sagði jafnframt í viðtalinu að nái hann ekki að kaupa útistandandi hlut í versluninni þá muni hann og þeir lykisstjórnendur sem eigi saman 23% hlut selja hann.

Líkur á fáum tilboðum

Bankarnir UBS og America Merrill Lynch hafa séð um söluna á hlut skilanefndar Landsbankans í Iceland Foods. Verðmat verslunarinnar hljóðaði í fyrstu upp á 1,8 milljarða punda, jafnvirði um 350 milljarða króna.

Í Telegraph í dag kemur fram að líklegt sé að breska verslunin Morrisons muni leggja fram tilboð í hlut skilanefndar í Iceland Foods og ekki útilokað að fjárfestingarsjóðirnir Bain og BC Partners verði með í kapphlaupinu. Fari svo að Morrisons kaupi verslunina séu líkur á að hún verði brotin upp í einingar og einstakar verslanir hennar seldar.