Kanadíska fjárfestingarfyrirtækið Fairfax Financial Holdings Ltd. vinnur nú að hlutafjáraukningu fyrir félag sem á að sérhæfa sig í fjárfestingum í afrísku heimsálfunni.

Greint er frá málunum á vef Bloomberg, en fyrirtækið hefur nú þegar tryggt sér tæplega hálfan milljarð Bandaríkjadala. Meðal fjárfesta í umræddum sjóði eru kanadískir lífeyrissjóðir og fjárfestingarfélög.

Sjóðurinn mun bera nafnið Fairfax Africa og er þar með annar sjóður félagsins, sem sérhæfir sig á ákveðnu landsvæði. Árið 2015 safnaði fyrirtækið einum milljarði dala í sjóð sem ber nafnið Fairfax India Holdings Corp., þar af var hálfur milljarður frá móðurfélaginu.

Fairfax Africa hefur ekki notið jafn mikilla vinsælda og Fairfax India, þar sem heimsálfan þykir almennt áhættusöm.

Fairfax hefur samt sem áður fjárfest í Afríku og þar má nefna 7,4% hlut í Commercial International Bank Egypt SAE, Afgri Operations Ltd., APR Energy og Africa Re.